Bryndís Valsdóttir heimspekikennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Súsanna Margrét Gestsdóttir sögukennari kynna valáfanga um mannréttindi. Hann fer fram í samstarfi við Rauða kross Íslands enda felst stór hluti áfangans í sjálfboðavinnu á vegum hans. Í bóklega hlutanum, sem fram fer í skólanum, kynnast nemendur þróun mannréttindahugmynda og stöðu mála á okkar dögum, einkum hvað varðar flóttamenn á Íslandi og annars staðar.
Edda Kristín Hauksdóttir, kennari í Hagaskóla kynnir verkefni sem byggist á því að nemendur í 10. bekk stofna stjórnmálaflokk með nafni, merki flokksins og stefnuskrá. Nemendur útbúa kynningu á flokknum sínum og undirbúa framboðsræðu. Framboðið er kynnt á framboðsfundi í bekknum sem lýkur með kosningum.
Jóhann Björnsson, lífsleikni- og heimspekikennari í Réttarholtsskóla, kynnir námsefni: Eru allir öðruvísi?Fjölmenning og heimspeki, Erum við öll jöfn? Kynjamál og heimspeki, Það er auðveldara að kljúfa atóm heldur en fordóma. Námsefni í fjölmenningarfærni handa efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum (meðhöfundar eru Björk Þorgeirsdóttir og Þórður Kristinsson) og 68 æfingar í heimspeki.
Kolbrún Svala Hjaltadóttir, kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingatækni í Flataskóla, kynnir verkefni tengt umhverfis- og loftslagsmálum sem byggist á samvinnu við vísindamenn sem koma í heimsókn í skólann og fræða nemendur hver um sitt vísindafag. Verkefnið hefur verið unnið síðast liðin 3 ár með nemendum í sjötta og sjöunda bekk. Einnig hefur verkefnið verið unnið sem eTwinningverkefni með ítölskum kennurum og nemendum.
Lilja M. Jónsdóttir, lektor við Kennaradeild Háskóla Íslands: Stöðva gróðurhúsaáhrifin Golfstrauminn?
Lilja kynnir umhverfisverkefni sem unnið var með nemendum í 6. bekk grunnskóla um hugsanleg áhrif gróðurhúsalofttegunda á hitastig jarðar og þá um leið á ferð Golfstraumsins um Norður-Atlantshaf. Um er að ræða málefni líðandi stundar og mikið álitamál. Aðalnámskrá grunnskóla (2011) leggur einmitt áherslu á að hluti af því að læra í lýðræði sé að gefa nemendum tækifæri til að takast á við málefni líðandi stundar sem og álitamál, þar sem þeir kynnast ólíkum skoðunum, þjálfast í að skiptast á skoðunum og í gagnrýninni hugsun.